Okkar trú

Alþjóða-fjölskyldan er alþjóðlegt, kristilegt samfélag þar sem einstaklingar sameinast í því að flytja boðskap Guðs um kærleikann um allan heim. Við trúum því að allir geti náð persónulegu sambandi við Guð í gegnum Jesú Krist en það veitir bæði hamingju og hugarró og verður því hvatning til þess að rétta öðrum hjálparhönd og sameinast í boðskap Hans um kærleikann. Trú okkar grundvallast á og er að mestu leyti í samræmi við þá kristni sem við þekkjum út um heim allan fyrir utan nokkrar trúarkenningar sem eru ekki jafn hefðbundnar. Boðskapur okkar varðandi grundvallarkenninguna um Lögmál Guðs um kærleikann sem Jesús boðaði ... að elska Guð og elska náungann eins og sjálfan sig „… á þessum tveimur boðorðum byggist allt Lögmálið og spámennirnir“ (Matteus 22:37- 40) er einmitt einkennandi þáttur í lífi okkar og trú.

Guðs orð

Guðs orð er hornsteinninn í trú okkar og gjörðum. Við trúum því að Biblían sé Orð Guðs, rituð af trúuðum einstaklingum innblásnum af Heilögum anda (2. Pétursbr. 1:21). Hinn eilífi vitnisburður hennar er grundvöllur trúar okkar og sannleikurinn, sem hún hýsir, er kjarninn í þeim boðskap sem við deilum með öðrum.

Við trúum því að Guð sé lifandi Guð sem enn þann dag í dag tali til þegna sinna og miðli boðskap sínum með nýjum opinberunum, spádómum og öðru því sem inniheldur andlegar leiðbeiningar og ráðleggingar.

Orð Guðs útskýra fyrirheit Hans til alls mannkyns, kenna okkur hvernig við getum lifað í sátt og samlyndi við Guð og menn, þau leiða okkur áfram í gjörðum okkar og ákvarðanatöku og eru okkur nauðsynleg fyrir andlegan styrk okkar og vöxt.

  • Jóhannes 1:1; Matteus 24:35; Jóhannes 8:31–32; Matteus 4:4; Rómverjabr. 10:17, 15:4; Postulasagan 2:17; Amos 3:7; Orðskviðirnir 1:23

Guð

Við trúum á einn Guð sem er almáttugur, alvitur, alltaf nálægur og eilífur og sem skapaði heiminn og allt sem í honum er. Biblían kennir okkur að Guð sé „andi“ (Jóhannes 4:24) og segir: „…því að Guð er kærleikur“ (1. Jóhannesarbr. 4:8). Við trúum því að Guð elski sérhvern einstakling fyrir sig með eilífri og óendanlegri umhyggju og leitist við að ná persónulegu sambandi við alla menn, konur og börn.

Guð lifir að eilífu í hinni heilögu þrenningu: Í Guði Föðurnum, Jesú Syninum og Heilögum anda.

  • Jesaja 43:10–11; Jóhannes 4:24, 14:23; 1. Jóhannesarbr. 4:19, 5:7; Matteus 28:19; 1. Korintubr. 8:6; Opinberunarb. 4:11

Jesús Kristur

„Því svo elskaði Guð heiminn að Hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á Hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ (Jóhannes 3:16) og „...svo að heimurinn gæti frelsast fyrir Hann“ (Jóhannes 3:17) og að Hann gæti frætt mannkynið um kærleikann. Jesús er staðfestingin á kærleika Guðs. Hann var píndur til dauða á krossinum til að bæta fyrir misgjörðir mannanna og syndir svo mannkynið gæti sameinast Guði á ný (Jesaja 53:4-6).

Við trúum því að Jesús hafi fyrir kraftaverk verið getinn af Heilögum anda og fæddur af Maríu mey. Hann gerðist maður og bjó á meðal mannanna svo Hann gæti verið milligöngumaður á milli Guðs og manna (1. Tímóteusarbr. 2:5). Hann reis á þriðja degi upp frá dauðum og eftir fjörutíu daga steig Hann upp til himna (Postulasagan 1:3). Við trúum því að Hann komi aftur til jarðar og stofni hér sitt ríki byggt á kærleika og réttlæti (Opinberunarb. 11:15).

  • 1. Tímóteusarbr. 3:16; Jóhannes 1:14; Filippíbr. 2:5–11; Hebreabr. 4:14–15; 2. Korintubr. 5:21; 1. Pétursbr. 2:24–25; 1. Korintubr. 15:3–6; Matteus 28:18; Postulasagan 1:9–11

Heilagur andi

Áður en Jesús steig upp til himna lofaði Hann að senda hinn Heilaga anda til fylgismanna sinna til þess að styrkja þá og leiða í andlegum samskiptum þeirra við Guð og menn og vera með þeim að eilífu (Jóhannes14:16).

Hinn Heilagi andi leiðir þá sem trúa í allan sannleikann, hjálpar þeim að skilja Guðs orð, aðstoðar þá í bænum sínum og eflir þá í vitnisburði þeirra um boðskap Jesú Krists (Postulasagan 1:8). Við trúum því að hver og einn sem hefur trú geti tekið á móti og fyllst af Heilögum anda einfaldlega með því að biðja Guð um það. Nærvera hins Heilaga anda birtist á mismunandi vegu hjá þeim sem trúa - sem náðargáfa, s.s. viska, þekking, trú, lækning, kraftaverk og spádómur (1. Korintubr. 12:4-11).

  • Jóhannes 16:7,13; Postulasagan 1:5,8; Jóhannes 14:15–18,26; Lúkas 11:13; Rómverjabr. 8:26–27; 1. Korintubr. 12:4–11; Orðskviðirnir 8:1,23,30

Sköpunin

Við trúum því að Guð hafi skapað himin og jörð eins og Sköpunarsaga Biblíunnar greinir frá. Guð skapaði mann og konu í sinni eigin mynd og blés í þau lífi, (1. Mósebók 2:7), þannig urðu þau lifandi verur vegna guðlegrar sköpunar en ekki vegna tilviljunarkenndrar þróunar. Hið sjáanlega sköpunarverk Guðs er kristaltær vitnisburður um hina ósýnilegu tilvist Hans (Rómverjabr. 1:20).

Við trúum því að Guð hafi afhent mannkyninu ábyrgðina að annast jörðina og íbúa hennar.

  • 1. Mósebók 1:1, 26–27, 2:15; Sálmarnir 8:4–8, 33:6–9; Jeremía 32:17; Hebreabr. 11:3

Frelsun fyrir sakir náðar Guðs

Við trúum því að þegar Guð skapaði manninn og konuna hafi þau verið syndlaus. Hann gaf þeim frjálsan vilja en þau syndguðu með því að óhlýðnast Guði. Þar sem þau komu syndug til jarðar urðu allir menn syndugir í eðli sínu (Rómverjabr. 5:12-14) og aðskildir Guði. En með sinni óendanlegu miskunn og kærleika kom Guð á sáttum við mannkynið með því að gefa son sinn eingetinn „til þess að hver sem á Hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf“ (Jóhannes 3:16). Þess vegna trúum við því að hverjum þeim sem móttekur sakaruppgjöf Guðs fyrir syndir sínar fyrir sakir Jesú Krists verður fyrirgefið; hann hlýtur endurlausn og mun lifa að eilífu í návist Guðs þótt hann deyi.

Frelsunin (fyrirgefning syndanna) er gjöf Guðs gefin í kærleika, miskunn og fyrirgefningu og getur aðeins hlotnast þeim sem trúa á Jesú. „Þá frelsaði Hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni í þeirri laug, þar sem vér endurfæðumst og Heilagur andi gjörir oss nýja“ (Títusarbr. 3:5). Þegar sá/sú sem trúir hefur móttekið sakaruppgjöf Guðs er hann/hún frelsuð/aður að eilífu og munu sálir þeirra hljóta eilift líf á himnum. „Ég gef þeim eilíft líf, og þeir skulu aldrei að eilífu glatast, og enginn skal slíta þá úr hendi minni“ (Jóhannes10:28). Þeir sem trúa munu áfram verða skeikulir og þurfa á fyrirgefningu Guðs að halda en þrátt fyrir syndir sínar og galla munu þeir aldrei tapa frelsun Guðs.

  • 1. Mósebók 3:17–19; 1. Korintubr. 15:21–22; Rómverjabr. 3:23, 6:23; Efesusbr. 2:7–9; 1 Jóhannes 1:8; Postulasagan 4:12; 1 Jóhannes 5:12; Rómverjabr. 5:8–9, 8:38–39

Trúin

Biblían segir okkur að Guð virði þá og umbuni þeim sem nálgast Hann í trúnni (Hebreabr. 11:6). Trúin vex og styrkist með rannsóknum á Orði Guðs (Rómverjabr. 10:17) og lifandi trú er túlkuð með gjörðum (Jakob 2:17). Við trúun því að trúin eigi að vera órjúfanlegur þáttur í lífi okkar og samskiptum við aðra. „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú“ (Rómverjabr. 1:17).

Við trúum því að Guð elski öll börnin sín og leitist við að leiða þau og styðja, hugga þau og styrkja og ala önn fyrir þeim. Trúin eflir okkur og við það treystum við Honum til þess að leiðbeina okkur og leiða í blíðu og stríðu, jafnvel þótt vegir Guðs séu stundum órannsakanlegir og við skiljum ekki alltaf hvers vegna Hann kemur ekki í veg fyrir þá erfiðleika sem við stöndum frammi fyrir. Þegar við felum líf okkar, vonir og framtíð í kærleiksríkar hendur Hans, þá treystum við því að Guð muni standa við orð sín. Hann mun láta allt það sem þeir sem elska Hann verða fyrir í lífinu verða þeim til góðs (Rómverjabr. 8:28).

  • Hebreabr. 11:1,6; Markús 9:23; Matteus 8:24–26; 2. Korintubr. 5:7; Matteus 9:29; Hebreabr. 10:35; Orðskviðirnir 3:5–6; Jesaja 55:8–11; Sálmarnir 27:13–14, 23:1–4, 34:15,17–19, 91:14–16

Að lifa í anda Guðs

Við trúum því að kristnir menn eigi að vera lifandi dæmi um kærleika Guðs, bæði í orði og á borði. Líf okkar á að endurspegla hinar andlegu dyggðir sem Biblían greinir frá - sem eru kærleikur, gleði, friður, langlundargeð, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsstjórn (Galatabr. 5:22-23).

Við fylgjum ritningu Biblíunnar: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru“ (1. Jóhannesarbr. 2:15). Við skiljum þetta þannig að sérhver sá sem trúir eigi að forðast það að eltast við veraldleg gæði sem ekki samræmist kenningum Krists; einnig koma sér hjá því að fylgja viðhorfum og gildum sem ekki eru í anda Guðs.

Þó svo við trúum því af heilum huga að frelsunin sé eilíf og að henni verði ekki glatað þrátt fyrir gjörðir mannanna, þá trúum við því einnig að þegar gjörðir okkar eru ekki í samræmi við boðorð Jesú um að elska Guð og náungann þá getum við fjarlægst Hann. Við trúum því að við þurfum að leitast við að feta í fótspor Krists, lifa samkvæmt boðskap Hans og sigrast á hverskyns veikleika og syndum sem geta hindrað samband okkar við Hann og aðra.

Vegna þess að líkamar okkar tilheyra Drottni og eru lifandi musteri sem hýsa hinn Heilaga anda trúum við því að kristnir menn eigi að leitast við að lifa heilbrigðu lífi (1. Korintubr. 6:19-20).

  • 1. Jóhannesarbr. 2:5–6; Jakobsbr. 2:26; 1. Jóhannesarbr. 2:15–17; Rómverjabr. 12:1–2; Orðskviðirnir 16:6; Jakobsbr. 3:17–18

Að ná sambandi við Guð

Bænin er sú leið sem við notum til þess að ná sambandi við Guð. Með bæninni staðfestum við hversu háð við erum Guði; við lofsyngjum Hann og látum þakklæti okkar í ljós; við biðjum Hann að koma á móts við þarfir okkar og annarra.

Við trúum því að bænin, sem er langt frá því að vera eingöngu trúarlegt ritúal, eigi að vera lífleg hlið á sambandi okkar við Guð. Bænin getur leyst mátt Guðs úr læðingi samkvæmt Hans vilja, hún getur veitt okkur svör, heilbrigði, traust, hugarró, gert kraftaverk og hún getur leiðbeint okkur og séð fyrir þörfum okkar. Jesús sagði: „Fyrir því segi ég yður: Hvers sem þið biðjið í bæn yðar, þá trúið, að þér hafið öðlast það, og yður mun það veitast“ (Markús 11:24).

Við trúum því að Guð leiti eftir sambandi við fólk. Hann vill vera í návist við alla menn í lífi þeirra, hughreysta þá og leiðbeina þeim og ráðleggja. Hann talar til hjarta þeirra sem leita til Hans bæði með óskynjanlegum hætti og sýnilegri teikn um nærveru Hans.

Guð lofaði að gera Orð sín kunn öllum börnum sínum með því að láta Anda sinn streyma yfir þau (Orðskviðirnir 1:23). Hæfileikinn til að móttaka bein skilaboð frá Guði útleggst í Biblíunni sem spádómsgáfa. Spádómsgáfa er náðargjöf hins Heilaga anda til handa þeim sem trúa og getur hún átt stórt hlutverk í lífi þeirra (Postulasagan 2:17).

  • Jeremía 33:3; Jóhannes 14:13–14; Matteus 7:7–8; 1. Jóhannesarbr. 5:14–15; 1. Þessaloníkubr. 5:17; Róverjabr. 12:6; Postulasagan 2:17–18; Orðskviðirnir 3:5–6; Efesusbr. 5:20; Sálmarnir 34:1

Umboðið

Kristnir menn hafa umboð Krists til að breiða út fagnaðarboðskapinn um kærleika Hans og frelsun til annarra (Markús 16:15). Kærleikur Guðs og frelsun mannanna gegnum Jesú Krist er gjöf til handa öllu mannkyninu, gjöf sem allir eiga fúslega að deila hver með öðrum. Við trúum því að kristnir menn eigi að reyna að ná til allra þjóðfélagshópa, án tillits til stétta, með boðskap Guðs að leiðarljósi og með aðferðum sem eru í anda Guðs.

Jesús brýndi fyrir fylgismönnum sínum að boða ekki eingöngu trúarlegan sannleika, heldur einnig reyna að ná til þeirra, sem eru þurfandi, fátækir og þeirra sem minna mega sín, með hluttekningu. Við trúum því að kristnir menn eigi að leitast við að hughreysta, aðstoða og hlúa að þeim sem þurfa á hjálp að halda.

  • Matteus 28:19–20; 2. Tímóteusarbr. 4:2; Daníel 12:3; Postulasagan 26:18; Matteus 5:14,16; Lúkas 9:1–2; Matteus 10:8; Orðskviðirnir 3:27, 19:17; 1. Korintubr. 16:14

Trúarsamfélagið

Við trúum því að kirkjan sé andleg eining allra þeirra sem trúa á Jesú Krist. Félagsskapur kristinna manna verður ekki skilgreindur í formi áþreifanlegra eða sýnilegra bygginga, trúarsöfnuða eða stofnana, heldur sem trúarsamfélag sameinað í anda og kærleika. „Guð er andi, og þeir sem tilbiðja Hann, eiga að tilbiðja í anda og sannleika“ (Jóhannes 4:24).

Við trúum því að frásagnir Nýja testamentisins um hinn nána félagsskap, samvinnu og andlega einingu innan frumkirkjunnar séu ekki eingöngu sagnfræðilegar frásagnir heldur einnig fyrirmynd fyrir komandi kynslóðir þeirra sem trúa.

Félagar í Alþjóða-fjölskyldunni eru einstaklingar sem tilheyra trúarsamfélagi sem teygir arma sína út um allan heim. Þeir líta á sig sem bræður og systur í anda, sameinuð í trú og hafa sama tilgang í lífinu. Við trúum því að þar sem Jesús dó fyrir okkur á krossinum „Svo eigum vér og að láta lífið fyrir bræðurna“ (1. Jóhannesarbr 3:16) og þjóna hver öðrum í kærleika (Galatabr. 5:13). Við trúum því að sem kristnir menn eigum við að lifa í sátt og samlyndi við aðra til þess að geta deilt kærleika Guðs með öllum heiminum og þannig bætt lífsgæði fólks.

  • 1. Pétursbr. 2:5; Efesusbr. 2:19–22; 1. Korintubr. 12:12–14; Postulasagan 2:46; 1. Jóhannesarbr. 1:7; Sálmarnir 133:1; 1. Pétursbr. 4:8; Jóhannes 15:13

Brúður Krists

Í Biblíunni er sambandinu á milli Guðs og þeirra sem á Hann trúa – sambandinu á milli Krists og kirkju Hans – líkt við samband á milli brúðguma og brúðar hans. Biblían segir okkur eftirfarandi: „Því að Hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, Drottinn allsherjar er nafn Hans“ (Jesaja 54:5) og að við erum „Honum gefin, Honum sem var upp vakinn frá dauðum (Jesú), svo að vér mættum bera Guði ávöxt“ (Rómverjabr. 7:4).

Við trúum því að þessi líking við hjúskap, sem greint er frá í Biblíunni og sem lýsir hinu nána, andlega sambandi á milli Jesú og Hans kirkju, sé ætlað að tákna hina kærleiksríku sameiningu hjarta, hugar og anda sem Jesús leitast við að finna hjá fylgismönnum sínum.

  • Hósea 2:19–20; Jesaja 61:10, 62:5; Efesusbr. 5:25; Opinberunarb. 19:7–9

Lærisveinarnir

Boðskapur kristinnar trúar einkennist af þeirri skuldbindingu að trúa á kenningar Jesú og fylgja þeim. „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir“ (Jóhannes 8:31). Við trúum því að enn þann dag í dag skori Jesús á alla þá sem trúa að fylgja sér og lifa samkvæmt kenningum Hans. Orð Hans eru í grundvallaratriðum hin sömu og þegar Hann ávarpaði fiskimennina við Galíleuvatn forðum: „Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða“ (Matteus 4:19).

Guðspjöllin lýsa lífi Jesú og nánustu lærisveina Hans sem gerðu það að lífsköllun sinni að þjóna Guði. Við trúum því að enn kalli Guð fólk til að tileinka Honum líf sitt með þjónustu við Hann. Á hvern hátt og að hve miklu leyti hver og einn helgar Kristi tíma sinn byggist á trú og sannfæringu hvers og eins fyrir sig.

  • Lúkas 9:23–24; Jóhannes 8:31–32, 15:16, 12:26; Markús 8:34–38

Lögmál Guðs um kærleikann

Við trúum því að lögmál Guðs um kærleikann eins og það birtist í Matteusarguðspjalli 22:35-40 eigi að vera ráðandi þáttur í lífi kristinna manna sem og í samskiptum þeirra við aðra. Lögvitringur nokkur í lögum Móse freistaði Jesú og spurði: „Meistari, hvert er hið æðsta boðorð í lögmálinu?“ Hann svaraði honum: „Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað er þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“ Þess vegna trúum við því að gjörðir kristinna manna eigi að stjórnast af einlægum kærleika sem sýndur er með óeigingirni og fórnfýsi að leiðarljósi – kærleika Guðs til meðbræðra okkar.

Lögmál Guðs um kærleikann er fylling lögmáls Biblíunnar, ásamt boðorðunum tíu, þar sem það uppfyllir tilgang slíkra lögmála. „Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig“ (Galatabr. 5:14). Þess vegna trúum við því að með frelsun Krists og með lögmál Hans um kærleikann að leiðarljósi séu kristnir menn leystir undan lögmálum Móse, sem greint er frá í Gamla testamentinu, og þurfi ekki lengur að fylgja þeim. Þess í stað skuli þeir virða æðra lögmál – lögmál Krists um kærleikann, sem eigi að stjórna öllum samskiptum þeirra við aðra.

  • Rómverjabr. 13:8–10; Jakobsbr. 2:8; Galatabr. 2:16, 3:23–25; Jóhannes 13:34; Rómverjabr. 10:4; Matteus 5:38–46

Máltíð Drottins, altarisganga

Máltíð Drottins, hin heilaga kvöldmáltíð, einnig þekkt sem altarisganga, er einföld helgiathöfn sem Jesús bað fylgismenn sína að að halda í heiðri til minningar um fórn Hans fyrir mannkynið (1. Korintubr. 11:25). Kristnir menn taka þátt í því að brjóta brauðið sem táknar hversu líkami Jesú var brostinn svo líkamar okkar yrðu heilir og í bergingu víns sem táknar hvernig blóði Hans var úthellt svo við gætum fengið fyrirgefningu fyrir syndir okkar. Við trúum því að með þjáningu Krists og dauða á krossinum hafi Guð ekki aðeins gert ráðstafanir varðandi frelsun alls mannkynsins heldur einnig hvað varðar heilun hverskyns líkamlegra þjáninga.

  • Matteus 26:26–28; Lúkas 22:17–20; Jóhannes 6:51; 1. Korintubr. 11:23–26; Jesaja 53:5

Lífið eftir dauðann

Við trúum því að allir hafi ódauðlega sál og að þegar þeir deyja sé sál þeirra fylgt inn í líf eftir dauðann þar sem þeim verður launað eða refsað fyrir hegðun sína í jarðnesku lífi og þeim fundinn staður í framhaldslífinu samkvæmt því.

Guð hefur gert Himnaríki að ríki eilífrar fegurðar, friðar og gleði til handa öllum þeim sem trúa á Jesú Krist (1. Korintubr. 2:9) og taka á móti gjöf Hans, frelsun mannanna. „…Hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk Hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl…“ (Opinberunarb. 21:3-4).

Þar sem innganga í Guðs ríki er gjöf þá trúum við því að launin, sem kristnir menn fá í Himnaríki, fari eftir gjörðum þeirra á jörðu og hvort þeir hafi lifað samkvæmt lögmáli Guðs um kærleikann.

Biblían segir: „…Hann (Guð) vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar“ (1. Pétursbr. 3:9) og að Jesú prédikaði fyrir öndunum í varðhaldi og til hinna látnu (1. Pétursbr. 3:18-20, 4:6). Við trúum því að Hann muni halda áfram að koma öllu í sátt við sig (Kólossubr. 1:20). Við trúum ekki því að allir þeir sem deyja án þess að hafa tekið á móti Jesú Kristi sem frelsara þeirra verði sjálfkrafa sendir til helvítis, til staðar þar sem eymd og þjáning ríkja - né heldur trúum við því að þeir skuli að eilífu vera sviptir frelsun eða betrun. Við trúum því að með kærleika sínum muni Guð halda áfram að elska þá sem deyja án frelsunar því Hann vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum (1. Tímóteusarbr. 2:4).

  • Jóhannes 14:1–3; 1. Pétursbr. 1:3–5; 2. Korintubr. 5:1–2; 1 Tímóteusarbr. 2:4, 4:10; Opinberunarb. 20:11–13; Rómverjabr. 5:18,21; 2. Korintubr. 5:10,18–19; Rómverjabr. 8:18; Opinberunarb. 22:12; 1. Korintubr. 3:13–15

Englar Drottins og látnir trúmenn

Englar eru áhrifamiklar, andlegar verur sem Guð skapaði og fól það verkefni að vaka yfir mannkyninu. Í Biblíunni er víða greint frá íhlutun þeirra þar sem þeir vernda og hjálpa börnum Guðs og flytja þeim boðskap. Við trúum því að svo sé enn þann dag í dag.

Við trúum því að Guð veiti einnig öndum látinna trúmanna umboð til að hlúa að þegnum sínum og færa þeim boðskap. Í Biblíunni er skýrt frá því þegar andar spámannanna Móse og Elía birtust Jesú og ræddu við Hann (Lúkas 9:28-31). Páll skírskotaði til látinna trúmanna – „…vér erum umkringdir slíkum fjölda votta…“ – sem vaka yfir jarðarbúum (Hebreabr. 12:1).

  • Sálmarnir 34:7, 91:11–12; 2. Konungab. 6:15–17; Postulasagan 12:7–11; Matteus 1:20–24; Lúkas 2:9–15; Opinberunarb. 19:10; Hebreabr. 12:22–23

Andlegur hernaður

Við trúum því að til sé andlegt ríki, sem hinn veraldlegi heimur sér ekki, þar sem Guð er ásamt englum sínum og góðum öndum og djöflinum (Satan) sem er erkifjandi alls réttlætis. Djöfullinn og hans illu andar eru í uppreisn gegn Guði og eru hvatamenn hins illa og þeirra þjáninga sem hrjáð hafa mannkynið í gegnum aldirnar.

Við trúum því að í þessu andlega ríki sé háð vægðarlaus barátta á milli góðs og ills, á milli Guðs og herafla Hans og djöfulsins og herafla hans þar sem báðir leitast við að hafa áhrif á sálir og huga mannkynsins sem og gang alheimssögunnar.

Við trúum því að kristnir menn geti átt stóran þátt í þessum andlega hernaði með því að trúa á Guð, treysta Honum og fylgja í hvívetna, bæði í orðum og gjörðum og með því efla Guðs ríki. Með óguðlegum gjörðum sínum eflir sumt fólk illu öflin og með því bælir það niður trú og góðar dyggðir (Efesusbr. 6:12).

Biblían spáir því að djöfullinn og herafli hans verði sigraðir að lokum og að áætlanir Guðs til handa mannkyninu muni sigra (Opinberunarb. 20:1-3,10). Ríki Jesú Krists verður svo stofnað á jörðu og „…Drottinn og Kristur hafa fengið vald yfir heiminum og Hann mun ríkja um aldir alda“ (Opinberunarb. 11:15).

  • Postulasagan 26:18; 1. Pétursbr. 5:8; Opinberunarb.12:7–9; 1 Jóhannes 3:8; 2. Korintubr. 10:3–5; Efesusbr. 6:11–12

Guðleg íhlutun

Biblían greinir frá mörgum yfirnáttúrulegum verkum Guðs sem ekki verða útskýrð. Við trúum því að um aldir alda hafi Guð gripið inn í líf mannanna til þess að breyta kringumstæðum og að Hann geri svo enn þann dag í dag til þess að láta í ljós kærleika sinn og mátt.

Á meðan Jesús var á meðal mannanna á jörðinni sýndi Hann ekki eingöngu kærleika sinn til mannkynsins með heilun hjarta og hugar heldur gerði Hann einnig kraftaverk með því að fæða þá hungruðu, lækna fólk af sjúkdómun og gera líkama þeirra heila. „Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir“ (Hebreabr. 13:8) og þess vegna trúum við því að Hann geri kraftaverk enn þann dag í dag.

  • Matteus 4:23–24, 10:1; Markús 16:17–18; Matteus 8:16–17; Lúkas 7:12–16; 1. Korintubr. 12:7–10; Jóhannes 14:12

Lyklarnir að himnaríki

Við trúum því að þær andlegu gjafir, sem Jesús gaf lærsveinum sínum, séu enn aðgengilegar til handa fylgismönnum Hans. Og þar sem Jesús sagði: „Ég mun fá þér lykla himnaríkis, og hvað sem þú bindur á jörðu, mun bundið á himnum, og hvað sem þú leysir á jörðu, mun leyst á himnum“ (Matteus 19:16) þá trúum við því að Hann hafi með þessum orðum bókstaflega verið að fela fylgismönnum sínum hina andlegu lykla himnaríkis í hendur sem tákn um betra aðgengi að mætti Hans. Þeir sem trúa geta öðlast lykla himnaríkis með bæn um að losa mátt Guðs til virkni við hvaða kringumstæður sem eru, samkvæmt Hans vilja.

  • Matteus 18:18; Lúkas 10:19; Opinberunarb. 1:18

Fjölskyldur

Við trúun því að Guð hafi hannað fjölskylduformið sem hornstein og undirstöðu þjóðfélagsins. Hann sagði fjölskyldum að deila lífi sínu með öðrum og styðja og hjálpa hvert öðru. Fjölskyldur eru nauðsynlegar til þess að sjá um uppeldi barna og veita þeim öryggi og ást.

Börn eru Guðs gjöf sem Hann blessar og treystir okkur fyrir, því „Sjá börn (synir) eru gjöf frá Drottni, ávöxtur móðurkviðarins er umbun“ (Sálmarnir 127:3). Við trúum því að það sé á ábyrgð kristinna foreldra að sjá um börnin sín með ást og umhyggju að leiðarljósi og að þeir skuli jafnframt því kenna þeim siðferðileg og góð gildi, að lifa í anda Guðs og virða og elska bæði Guð og menn (Efesusbr. 6:4).

Við trúum því að Guð hafi skapað hjónaband milli karls og konu og að hjónabandið sé hið fullkomna samband sem stuðli að myndun fjölskyldna sem eru í jafnvægi. Fólk, sem gengur í heilagt hjónaband, gerir sáttmála frammi fyrir Guði, skuldbindur sig til að elska, sjá um og bera ábyrgð á konu sinni eða eigimanni sínum og börnum þeirra (Matteus 19:4-6).

  • Sálmarnir 68:6; Efesusbr. 6:1–4; 1. Mósebók 2:18, 21–24; Efesusbr. 5:25–31; Sálmarnir 127:3–5; Matteus 19:13–14; Orðskviðirnir 22:6; 5. Mósebók 6:5–7

Kynhneigð

Við trúum því að Guð hafi skapað og ákvarðað kynhneigð mannanna og við teljum að það sé eðlilegur gangur lífsins. Biblían segir að Guð hafi sagt við fyrsta manninn og konuna: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina“ (1. Mósebók 1:28). „Og Guð leit allt, sem Hann hafði gjört“, – sem fól í sér sköpun mannsins og konunnar ásamt líkama þeirra og kynhneigð, – „og sjá, það var harla gott“ (1. Mósebók 1:31).

Það er trú okkar að samband byggt á gagnkynhneigð og sem er í samræmi við það sem Guð ætlaði að væri á milli fullorðinna einstaklinga og með samþykki þeirra sé fullkomlega eðlilegt undur í sköpunarverki Guðs og leyfilegt samkvæmt Heilagri ritningu.

  • 1. Mósebók 1:26–28, 2:18–25; Títusarbr. 1:15; Rómverjabr. 13:10; Galatabr. 5:22–23

Lífið er heilagt

Við trúum því að mannlegt líf sé heilagt og að sérhver manneskja fyrir sig hafi öðlast þann rétt, sem Guð gaf henni, að komið sé fram við hana með virðingu – sem einstakling sem Guð skapaði í sinni mynd. Það er skylda okkar sem kristið fólk að elska náungann eins og okkur sjálf (Markús 12:31) án tillits til kynþáttar, kyns, trúar, þjóðernis eða þjóðfélagsstöðu. Við erum mótfallin hvers kyns mismunun, hleypidómum og ofbeldi sem fer ekki saman við líf í anda Guðs.

Við trúum því að lífið, frá getnaði til dauðadags, sé ómetanleg gjöf frá Guði og það beri að virða og hlúa að því. Þar sem Guð er hinn eini og sanni lífgjafi, þá trúum við því að sú stund er við deyjum skuli einnig vera í Hans höndum (Sálmarnir 31:15).

  • 1. Mósebók 1:27, 2:7; Sálmarnir 139:14–16; Galatabr. 6:10; Rómverjabr. 2:11; 1. Korintubr. 16:14

Borgaraleg skylda

Við teljum það vera skyldu kristinna manna að vera góðir borgarar í hvívetna og lifa í samræmi við kristin gildi; viðhafa heiðarleika og heilindi í verki og bera ávallt hagsmuni samfélagsins fyrir brjósti. Við fylgjum kenningu Biblíunnar: „Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn‟ (Rómverjabr. 13:1). Í tilvikum þar sem lög eða samþykktir brjóta í bága við trúarsannfæringu einhvers eða rétt hans til að iðka trú sína þá trúum við því að kristið fólk skuli fara eftir sinni eigin sannfæringu (Postulasagan 5:27-29).

  • Rómverjabr. 12:18, 13:1-7; 1. Pétursbr. 2:17; Matteus 22:20-21; Postulasagan 4:19-20

Endurkoma Jesú

Við trúum því að spádómur Heilagrar ritningar varðandi framtíð heimsins muni rætast eins og margir spádómar Biblíunnar hafa gert í aldanna rás. Við trúum því að þeir tímar, sem við lifum á núna, séu, eins og getið er um í Biblíunni, „hinir síðustu dagar‟ sem á þá við tímabilið fyrir endurkomu Jesú Krists (2. Tímóteusarbr. 3:1). Endurkomu Hans til jarðar munu fylgja árþúsundir friðar, afnám stríða og ofbeldis, og réttlæti og jafnrétti mun ríkja til handa öllu mannkyninu.

  • Daníel 12:4; Matteus 24:29-31; Opinberunarb. 11:15; Daníel 2:44; Jesaja 11:9